Iðnaðarhampur og hampolía

Hampolía eða hampfræjaolía er unnin úr fræjum iðnaðarhamps. Olían er rík af ýmsum næringarefnum eins og ómettuðum GLA-, omega 3- og omega 6- fitusýrum, sem eru taldar „hollar“ fitusýrur. Önnur innihaldsefni eru B, C og D vítamín og steinefni eins og magnesíum, járn og kalk. Auk þess innheldur olían andoxunarefni og allar 9 nauðsynlegu amínósýrurnar. 

Hampolía flokkast sem ofurfæða og er því frábær viðbót við daglega fæðu fólks. Eiginleikar olíunnar eru einnig góðir fyrir húðina. Hún er nærandi og getur gefið henni ferskt útlit og mjúka áferð. Iðnaðarhampur er afbrigði kannabisplöntunnar, sem inniheldur nánast ekkert THC (undir 0.2%), sem er virka efnið í kannabis og ólöglegt á íslandi. Hægt er að nýta iðnaðarhampinn í ýmislegt og telja margir hann vera jurt framtíðarinnar. Trefjarnar úr stilknum er hægt að nota í byggingarefni og fatnað og þær geta einnig komið í staðinn fyrir skaðleg efni, t.d. plast. Fræin er hægt að borða og vinna í hampolíu. Úr öllum hlutum plöntunnar er hægt að fá CBD útdrátt, en mesta nýtnin kemur úr laufum og aldinsprotum hampsins.

Undanfarið hefur átt sér stað vitundarvakning í ræktun iðnaðarhamps á íslandi þar sem bændur og fleiri hafa uppgötvað ofangreind notagildi jurtarinnar. Yfirvöld hafa einnig verið að stíga skref í sömu átt, þar sem innflutningur hampfræja til ræktunar á iðnaðarhampi var leyfður í apríl 2020. Nú í júní 2021 var lagabreyting samþykkt sem gerir það að verkum að málefni iðnaðarhamps færast frá lyfjastofnun yfir til matvælastofnunar.